Fiskar

BleikjaHornsíliUrriðiLax og silungur

Mývatn er með þekktustu veiðivötnum hér á landi, enda er silungsveiði þar oft mikil og silungurinn vænn. Þegar talað eru um silung er átt við tvær skyldar fisktegundir í einu, urriða og bleikju. Báðar tegundir eru í Mývatni. Þriðja fisktegundin í Mývatni er hornsíli. Í Laxá er urriðinn aðalfiskurinn í efri hlutanum en lax gengur í neðri hluta árinnar.

Bleikja

Bleikjan er þýðingarmesti veiðifiskurinn. Af henni eru tvö afbrigði í Mývatni þ.e. venjuleg bleikja og það sem heimamenn kalla krús. Krúsin er fremur smávaxin, verður sjaldan meira en 25 cm, dökk yfirlitum með snubbótt trýni og dálítið undirmynnt. Krúsin heldur sig nær eingöngu við lindasvæðin í vatninu suðaustanverðu. Er hún talin óæt. Dvergvaxið bleikjuafbrigði, gjáarlonta, finnst í hraunhellum við vatnið, ríflega fingurstórir fiskar, sem líkjast seiðum í útliti.

Bleikjan hrygnir á tímabilinu október-desember. Riðin (hrygningarstöðvarnar) eru einkum á malarbotni á köldu lindasvæðunum við suðaustanvert vatnið, en einnig á grunnum annars staðar í Syðriflóa. Krúsin virðist hrygna lítið eitt seinna. Seiðin klekjast á útmánuðum og dveljast ofan í mölinni þar til þau eru laus við kviðpokann. Lítið er vitað um ferðir þeirra eftir að þau hverfa af riðunum.

Bleikjan vex hratt í Mývatni. Hún lengist um 7-8 cm á hverju ári fyrstu 4-5 árin en síðan dregur úr vextinum. Bleikjan verður kynþroska á 4. ári og er þá röskir 30 cm á lengd. Meirihluti hrygna sem orðnar eru 35 cm er orðinn kynþroska. Sú bleikja sem kemur í net er mest fjögurra til fimm ára fiskur, 30-50 cm langur  (0,7-1 kg). Árin 1933-34 var 5-7 ára bleikja algengust í veiðinni.

Bleikjan getur nýtt sér ýmsar átutegundir og fer fæðuvalið eftir árstímum og hvar í vatninu hún heldur sig. Einnig er munur milli ára. Mýlirfur og púpur eru mikið étnar á vorin en krabbadýr um hásumarið, helst kornáta, skötuormur og langhalafló.  Hornsíli og vatnabobbar virðast síður eftirsótt en eru aftur á móti aðalfæða urriðans í Mývatni.

Mývetningar nota mismunandi nöfn á silunginn eftir stærð hans og ásigkomulagi. Sum nöfnin eru ekki notuð í öðrum héruðum. Silungur er vanalega nefndur branda við Mývatn. Ljósabranda er ung bleikja. Hrygnan er nefnd gála, smásilungur lonta eða kræða. Birtingur kallast ljós og stór bleikja sem ekki gengur á rið og maraslápar eru magrar bleikjur frá stöðum þar sem mikill gróður er á botni.

Hornsíli

Hornsílastofn Mývatns getur orðið mjög stór og sjást þá stórar torfur ganga með löndum. Hornsílin nærast einkum á smávöxnum krabbadýrum og mýlirfum.

Urriði

Urriðinn er einkum í Ytriflóa og hrygnir mest á uppsprettusvæðinu sunnan við Voga. Laxá er annars höfuðból urriðans. Áin er tvímælalaust besta urriðaveiðiá landsins og þótt víðar væri leitað. Aðalfæða urriðans í Laxá eru bitmýslirfur og púpur, og fer ástand stofnsins mikið eftir því hvernig árar fyrir bitmýið.

Lax- og silungsveiði

Neðan Laxárvirkjunar, í Laxá í Aðaldal, er laxinn aðalfiskurinn og áin í hópi frægustu laxveiðiáa.

Byggð við Mývatn hefur lengst af verið háð silungsveiði. Silungurinn er nú mest veiddur í lagnet á sumrin, en notkun þeirra hefur tíðkast í aldaraðir á Mývatni. Einnig er talsvert veitt á dorg, þ.e. á færi niður um ís, síðari hluta vetrar. Á dorgina var beitt fiskiflugumaðki áður fyrr, en rækja er mest notuð nú til dags. Sumir veiða einnig með lagnetjum undir ísi á veturna.

Fyrr á síðustu öld var riðsilungurinn tekinn í fyrirdráttarnet á haustin (dráttarveiði). Einnig bar nokkuð á því í miklum sumarhitum að bleikja sækti inn á lindasvæðin. Var sá silungur nefndur hitasilungur og tekinn í fyrirdráttarnet. Þá var fyrirdráttur stundaður á vetrum undir ísi, einkum nálægt vökum við landið.

Hver jörð átti sín vissu lagnastæði fyrir lagnetin. Flest eða öll voru þau við grunn eða hnykla er hétu sínum nöfnum. Gilti þetta þangað til breytingar urðu með tilkomu nýrra neta um 1930. Fram að þeim tíma spunnu menn sjálfir efnið í lagnetin. Baðmullarnet komu til sögunnar um eða nokkru fyrir 1930 og nælonnet um 1950. Nú eru eingöngu notuð girnisnet, en þau komu um 1960. Utanborðsvélar urðu algengar í kringum 1950 og var þá farið að sækja lengra út á vatnið til veiða en áður tíðkaðist.

Frá fornu fari hefur hverri jörð sem liggur að vatninu tilheyrt eitt dráttarmál (60 faðmar) frá landi en þar fyrir utan var almenningur sem allir hreppsbúar virðast hafa haft jafnmikinn aðgang að. Dorgarganga hefur löngum verið tíðkuð á veturna í almenningi vatnsins, bæði af innan- og utansveitarmönnum.

Miklar breytingar hafa verið í aflabrögðum. Árin 1864-1874 og 1920-1926 eru í minnum höfð sem aflaár. Á síðara tímabilinu veiddust nærri 100 þúsund silungar á ári þrjú ár í röð. Annars hefur veiðin oftast verið 20-40 þúsund silungar á ári, en hefur farið minnkandi hin síðari ár (eftir 1970) og nú um stundir er afar lítil bleikjuveiði í vatninu. Sveiflur í aflabrögðum hefur mátt rekja til ofveiði og átubreytinga.

Eins og nærri má geta hafa skapast ákveðnar hefðir í sambandi við verkun silungsins. Nú til dags er silungurinn einkum soðinn nýr eða settur í reyk. Reyktur silungur nefnist saltreyð. Silungurinn er fyrst flattur þannig að flökin hanga saman á stirtlu og kvið. Síðan er hann stráður salti og látinn liggja í sólarhring. Þá eru hann hengdur á rá þannig að holdið snýr út og reyktur við tað í reykhúsi.