Rykmý

Þegar mýflugur ber á góma verður flestum eflaust hugsað til mývargsins, sem ófáir hafa einhvern tíma orðið fyrir barðinu á. Mývargurinn kviknar af botni Laxár. Þorri mýsins í Mývatnssveit er meinlaus með öllu og kallast rykmý.

Liðlega 40 tegundir af rykmýi þekkjast í Mývatnssveit, en aðeins fáar eru verulega algengar. Allar eiga þær sammerkt að dveljast drýgstan hluta ævinnar sem lirfur á vatnsbotninum. Sumar gera sér pípur í leðjuyfirborðinu, aðrar príla um á vatnagróðrinum. Mergðin getur verið með ólíkindum. Ekki er óalgengt að liðlega 200.000 lirfur finnist á hverjum fermetra af vatnsbotni. Það merkir að á lófastórum bletti geta verið um 2000 lirfur. Stundum er fjöldinn miklu meiri en það. Kísilþörungar og rotnandi lífverur er aðalfæða þeirra. Fáeinar tegundir hafa þó sérhæft sig sem rándýr og leggjast á önnur smádýr á botninum. Stærsta mýflugutegundin, svonefnd stóra toppfluga, er 1-2 ár á lirfustigi. Lirfur hennar eru blóðrauðar á lit og ganga því stundum undir nafninu blóðormar. Minni rykmýstegundir dvelja skemur í vatninu. Mynd af lífsferli rykmýs.

Mýgöngur

Hver rykmýstegund hefur sinn “vitjunartíma”, þannig að lirfurnar púpa sig og skríða úr púpuhýðinu (kvikna) á sama tíma. Er þá talað um mýgöngu. Flugurnar leita til næsta lands og safnast saman við ákveðin kennileiti við vatnsbakkann. Kennileitin geta verið vatnsbakkinn sjálfur, tré, hús, haunnibbur, vegkantar, hólar eða ljósar skófir á steinum. Við hagstæð veðurskilyrði hefja mýflugurnar sig á loft og sveima yfir kennileitunum. Myndast þar strókar mýflugna. Í þeim eru aðallega karlflugur, en kvenflugur heimsækja strókana og parast við karlana. Kvenflugurnar fljúga að því búnu út á vatn og verpa eggjunum í vatnsyfirborðið. Lýkur þar með æviskeiði þeirra því að flugurnar taka litla sem enga næringu. Stóra toppfluga er á ferli í lok maí eða í júníbyrjun og þegar mikið er af henni eru strókar hennar með tilkomumestu náttúruundrum í Mývatnssveit. Strókar slæðumýs, eða litlu-toppflugu, í júní og ágúst geta einnig verið miklir, og er þá engu líkara en þoka liggi yfir vatnsbökkunum.

Áraskipti eru að því hve mikið mýið er. Sum árin er sveitin kvik af flugu og geta mýmekkirnir orðið svo þykkir að ekki sést milli bæja. Önnur ár sést varla fluga á sveimi. Gengur þetta í bylgjum með um 5-7 ára millibili.

Mýgras

Í mýárum ferst mikið af mýinu í grassverðinum við vatnsbakkana, einkum við snögg veðrabrigði. Nefnist þetta mýfall og er góður áburður á gróðurinn. Var það hald manna að eftir mýfall nyti gróðurinn þess næstu þrjú árin. Grasspretta verður afburða góð og var mýgrasið, sem svo kallast, þýðingarmikið áður en tilbúinn áburður kom til sögunnar og túnrækt jókst. Gætir áburðaráhrifa a.m.k. á um 300 metra breiðu belti umhverfis vatnið.

Mýfluguætur

Mýflugnamergðin skapar ákjósanleg skilyrði fyrir köngulær, enda er meira af köngulóm í Mývatnssveit en þekkist annars staðar á landinu. Hrískönguló, Dictyna arundinacea, og randakönguló, Tetragnatha extensa, eru sjaldgæfar utan Mývatnssveitar. Maurköngulóin, Nuctenea patagiata, er svo algeng að vefir hennar geta þakið heilu klettana. Þá er vert að benda á hve lyfjagrasið er algengt við Mývatn, en það fangar mýflugur með límkenndum blöðunum og nærist að nokkru af þeim.

Krabbadýr

Mýflugulirfurnar eru þýðingarmestu botndýrin fyrir fiska og fugla. Af öðrum botndýrum ber mest á  krabbadýrum. Örsmáar vatnaflær skríða á gróðrinum, í  leðjunni eða taka stutta sundpretti yfir botninum. Kornátan, Eurycercus lamellatus á fræðimáli, er hin stærsta þeirra, verður allt að 4 mm á lengd. Heldur hún sig mest í grænþörungateppinu á botninum. Kornátan er þýðingarmikil átutegund fyrir fisk og fugl. Skötuormar, Lepidurus arcticus, eru algengir, en þeir eru sannkallaðir risar meðal krabbadýranna í Mývatni, eða allt að 3 cm að lengd.

Svifdýr

Helst ber að nefna langhalafló, Daphnia longispina á fræðimáli, smávaxið glært krabbadýr, sem heldur sér á floti með kraftmiklum sundtökum tveggja fálmara. Langhalaflóin er vinsæl áta bæði hornsílis og bleikju. Einnig mætti nefna árfætlur (Copepoda) og hjóldýr (Rotifera). Um 70 tegundir hjóldýra eru þekktar, og eru þær allar smásæjar.

Bitmý

Í Laxá er það mývargurinn sem ræður ríkjum. Þessi mýflugutegund hefur lagað sig að lífi í straumvatni og hefur því allt aðra lifnaðarhætti en rykmýið. Bitmýslirfurnar þurfa að halda sér sem fastast svo að straumurinn hrífi þær ekki með sér. En straumurinn færir þeim einnig björg í bú. Ofan úr Mývatni berast ótal svifþörungar og aðrar lífrænar agnir, og nærast lirfurnar á þeim. Lirfan festir afturendann við stein eða gróður á árbotninum. Á höfðinu hefur hún tvo stóra kamba, sem hún spennir út og notar sem síubúnað.
Steinar á botni árinnar eru oft þaktir þykku lagi af bitmýslirfum og púpum. Á sandbotni þrífast bitmýslirfur ekki, og er svo í Syðstukvísl, neðan ármóta við Kráká, en Kráká ber mikið af sandi með sér í Laxá.

Mest er af bitmýslirfum næst útfalli árinnar úr Mývatni og þar vaxa þær einnig hraðast og púpa sig fyrst. Skýringin á þessu er sú að mest er af fæðuögnum í árvatninu þar sem áin fellur úr Mývatni. Lirfurnar þar eru svo þurftafrekar að minna verður til skiptanna fyrir þær sem fjær útfallinu búa. Þetta hefur sitt að segja í sambandi við göngur mývargsins.

Venjulega koma tvær göngur á  sumrin. Fyrsti vargurinn flýgur í júníbyrjun og varir gangan fram á mitt sumar. Þá verður hlé meðan ný kynslóð er að vaxa í ánni. Flugur sem henni tilheyra byrja að kvikna efst í ánni um miðjan júlí. Er líður á júlímánuð kvikna flugur sífellt neðar í Laxárkvíslum eftir því sem lirfurnar ná að þroskast. Að því kemur að allar eru horfnar efst úr ánni en neðar ná aðeins sumar lirfur að þroskast til fulls og aðrar missa af lestinni. Þær verða að þrauka veturinn og púpa sig vorið eftir. Niðri í Laxárdal nær aðeins ein kynslóð að kvikna og koma flugurnar á miðju sumri. 

Mývargurinn er illræmdur fyrir að sjúga blóð. Einungis kvenflugurnar gera það, enda er tilgangurinn sá að fá næringu til að verpa eggjum. Er flugurnar kvikna hafa þær næga næringu til að verpa einu knippi af eggjum, en ætli þær sér meira verða þær að komast í blóð. Búfénaður verður illa fyrir barðinu á varginum en mannfólkið fær einnig að kenna á honum. Ferðamanninum er huggun í því að flugurnar eru ekki sérlega skæðar nema við sérstök veðurskilyrði og innandyra leita þær ekki á fólk. Helst er vargurinn erfiður viðskiptis í röku en mildu veðri. Getur þá verið pæluvargur sem svo er kallaður.

Alkunna er að vargurinn gerir mannamun. Sumir eru sjaldan bitnir þótt allir hafi einhver óþægindi af návist flugnanna. 

Leirlosið úr Mývatni er mikilvæg fæða fyrir bitmýslirfurnar. Bitmýsstofninn fylgir breytingum sem verða á leirlosinu frá ári til árs. Sum ár er því lítið um varg en önnur ár blómstrar hann.

Rykmý í Laxá

Nokkuð er af rykmýslirfum í Laxá. Eru þar nokkrar tegundir á ferð, en vert er að geta einnar agnarsmárrar tegundar sem kviknar óvenju snemma. Kemur hún upp úr ánni í apríl og fyrri hluta maí, en þá er oftast snjór á jörð og Mývatn ísi lagt. Hefur fluga þessi þá sérstöðu að mynda ekki stróka, heldur para flugurnar sig á jörðu niðri, enda veðurskilyrði sjaldan hagstæð til flugæfinga á þessum árstíma. Þessar flugur eru nýkomnum farfuglum kærkomið fóður þegar lítið annað er að hafa.

Önnur smádýr í Mývatni og Laxá

Ýmis önnur smádýr fyrirfinnast í Mývatni og má nefna snigla, blóðsugur, samlokur, liðorma, flatorma og loks holdýrið Hydra. Á vissum blettum er botn Laxár þakinn þessum dýrum og nærast þau á ýmsum krabbadýrum sem berast ofan úr Mývatni.