Hvað gerum við?

Rannsóknastöðin

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (RAMÝ) er vísindastofnun á vegum Umhverfisráðuneytisins, byggð á lögum um verndun Mývatns og Laxár og hefur verið starfrækt síðan 1974. Hún fæst við rannsóknir á náttúru og sögu Mývatns og Laxár og vatnasviðs þeirra með það höfuðmarkmið að skilja náttúrufarsbreytingar og sjá þær fyrir og stuðla þannig að verndun svæðisins. Stöðin er í gamla prestseturshúsinu á Skútustöðum.

Mývatn og Laxá og vatnasvið þeirra er lífríkt og fjölbreytt vatnakerfi á eldvirku rekbelti á mörkum tveggja jarðskorpufleka og á sér enga hliðstæðu á jörðinni. Svæðið nýtur sérstakrar verndar með lögum og alþjóðasamningi. Það laðar að sér fjölda ferðamanna og fóstrar jafnframt mikið mannlíf sem nýtir náttúruauðlindir þess. Náttúra svæðisins tekur umtalsverðum breytingum, m.a. vegna jarðfoks, eldvirkni, námuvinnslu, jarðhitanýtingar, ræktunar, breytinga á búfjárbeit, samgöngumannvirkja og annarrar mannvirkjagerðar.

Náttúrurannsóknastöðin leitast við að standa í fremstu röð í rannsóknum á vistfræði vatns og lífríki vatna og vöktun þeirra. Hún stefnir að því að rannsóknir á hennar vegum standist alþjóðlegar kröfur og rannsóknaniðurstöður birtist í viðurkenndum vísindaritum. Vegna þess gildis sem langtímagögn um ástand vatns og lífríkis þess hefur fyrir rannsóknir og ráðgjöf safnar stöðin og heldur til haga slíkum gögnum. Gagnasafn stöðvarinnar nær nú aftur til ársins 1975 og er með þeim lengstu í heiminum um ástand lífríkis í stöðuvatni.

Stöðin birtir skrá um rannsóknir sem gerðar hafa verið á náttúru Mývatns og Laxár og vatnasviðsins alls. Hún leitast við að laða til sín sérfræðiþekkingu með samvinnu við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og veita starfsfólki þeirra og nemendum í náttúrufræðum aðstöðu til rannsókna og hlutdeild í gagnasafni stöðvarinnar.

Stöðin miðlar þekkingu á náttúru svæðisins til almennings og skóla í ræðu og riti og styður við sýningarhald og aðra fræðslu. Einnig er stöðin stjórnvöldum til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að fræðslu um svæðið, verndun þess og nýtingu. Stöðin leitast við að safna og miðla gögnum um sögu og menningu svæðisins og leggur sérstaka rækt við að styðja skólastarf á starfssvæði sínu.

Við rannsóknir sínar leitast stöðin við að raska ekki náttúrunni eða trufla dýralíf, og að vinna í samráði við landeigendur og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.

Samstarf

Í gildi er samningur milli rannsóknastöðvarinnar og  Háskóla Íslands um gagnkvæma aðstöðu. Starfsmaður stöðvarinnar hefur skrifstofu- og rannsóknaaðstöðu í húsnæði Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ og gegnir stöðu gestaprófessors við deildina, en starfsmenn Háskólans nýta vinnu- og gistiaðstöðuna á Skútustöðum. HÍ og RAMÝ hafa nána samvinnu um rannsóknir á fuglum og mýi. Einn doktorsnemi í jarðfræði við HÍ hefur aðstöðu hjá RAMÝ, Ulf Hauptfleisch. Samningar hafa einnig verið gerðir við Hólaskóla og Náttúrustofu Norðausturlands. Samvinna er einnig við Veiðimálastofnun um vöktun á silungi í Mývatni, og annast sú stofnun ráðgjöf til Veiðifélags Mývatns. Veðurstofan rekur sjálfvirka veðurstöð að Syðri Neslöndum við Mývatn. Einnig rekur Veðurstofan athugunarstöð í Reykjahlíð og sólskinsmæli í Haganesi. Orkustofnun annast vatnamælingar á svæðinu. Jarðvísindastofnun Háskólans hefur unnið að efnamælingum í lindum við Mývatn undir stjórn Sigurðar Reynis Gíslasonar og Eydísar Salóme Eiríksdóttur. Samvinna var við Fornleifastofnun Íslands, Oslóarháskóla (Christian Keller), INSTAAR (Institute of Arctic and Alpine Research, Colorado) (Astrid Ogilvie) og City University of New York (Thomas McGovern og Sophia Perdikaris) og Edinborgarháskóla (Andy Dugmore og Anthony Newton) um rannsóknir á minjum á svæðinu. Einnig er samvinna við Anthony Ragnar Ives og fleiri frá Háskólanum í Wisconsin, Bandaríkjunum og Vincent Jansen við Háskólann í London Royal Holloway um rannsóknir á stofnsveiflum í rykmýi í Mývatni. Þá er samvinna við Glasgow University  (Philippa Ascough) um mælingar á stöðugum ísótópum í fæðuvef Mývatns og við breskan hóp fornvistfræðinga frá háskólunum í Durham (Mike Church) og Leeds (Ian Lawson og Katherine H. Roucoux) um rannsóknir á fornum kolagröfum.  Verkefnið um fornvistfræði Mývatn byggir á samvinnu við háskólann í Árósum (Erik Jeppesen og Bent Odgaard), University College í London (Helen Bennion) og University of Regina, Kanada (Peter Leavitt). Loks má geta samvinnu við japanska vísindamenn frá Lake Akan Ecomuseum Center (einkum Isamu Wakana) um rannsóknir á kúluskít í Mývatni og Takkobu-vatni í Japan og samvinnu við Fuglasafn Sigurgeirs um fuglaathuganir á Mývatni.