Lög og markmið
Náttúra Mývatns og Laxár
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er ríkisstofnun sem starfar samkvæmt lögum um verndum Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004. Lögin, í sinni upprunalegu mynd (1974), eru hluti af sáttagerð milli ríkis og landeigenda við Mývatn og Laxá að lokinni snarpri deilu um virkjanir og vatnaflutninga á svæðinu. Mývatn og Laxá og vatnasvið þeirra er lífríkt og fjölbreytt vatnakerfi sem á sér enga hliðstæðu á jörðinni. Svæðið nýtur nú sérstakrar verndar með lögum og alþjóðasamningi. Það laðar að sér fjölda ferðamanna og fóstrar jafnframt mikið mannlíf sem nýtir náttúruauðlindir þess. Náttúra svæðisins tekur umtalsverðum breytingum, m.a. vegna jarðfoks, eldvirkni, námuvinnslu, jarðhitanýtingar, ræktunar, breytinga á búfjárbeit, samgöngumannvirkja og annarrar mannvirkjagerðar.
Rannsóknir
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er vísindastofnun og fæst við rannsóknir á náttúru Mývatns og Laxár og vatnasviðs þeirra með það höfuðmarkmið að skilja og sjá fyrir náttúrufarsbreytingar. Stöðin leitast við að standa í fremstu röð í rannsóknum á vistfræði vatns og lífríki vatna og vöktun þeirra. Hún stefnir að því að rannsóknir á hennar vegum standist alþjóðlegar kröfur og rannsóknaniðurstöður birtist í ritrýndum vísindaritum. Vegna gildis langtímagagna um ástand vatns og lífríkis þess fyrir rannsóknir og ráðgjöf safnar stöðin og heldur til haga slíkum gögnum. Stöðin birtir skrá um rannsóknir sem gerðar hafa verið á náttúru Mývatns og Laxár og vatnasviðs þeirra. Hún leitast við að laða til sín sérfræðiþekkingu með samvinnu við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og veita starfsfólki þeirra og nemendum í náttúrufræðum aðstöðu til rannsókna og hlutdeild í gagnasafni stöðvarinnar.
Miðlun þekkingar
Stöðin miðlar þekkingu á náttúru svæðisins til almennings og skóla í ræðu og riti og styður við sýningarhald og aðra fræðslu um náttúru svæðisins og nærliggjandi þjóðgarða. Hún er stjórnvöldum til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að fræðslu um svæðið, verndun þess og nýtingu. Stöðin leitast við að safna og miðla gögnum um sögu og menningu svæðisins og leggur sérstaka rækt við að styðja við skólastarf á starfssvæði sínu.
Umgengni
Við rannsóknir sínar leitast stöðin við að raska ekki náttúrunni eða trufla dýralíf, og að vinna í samráði við landeigendur og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.