Fuglar
Álft • Auðnutittlingur • Brandugla • Dílaskarfur • Duggönd • Endur (almennt) • Endur (sjaldgæfar) • Fálki • Fjallafinka • Flórgoði • Gargönd • Grafönd • Grágæs • Gulönd • Hávella • Heiðagæs • Heiðlóa • Hettumáfur • Himbrimi • Hrafn • Hrafnsönd • Hrossagaukur • Húsönd • Jaðrakan • Kjói • Kría • Lómur • Lóuþræll • Maríuerla • Músarrindill • Óðinshani • Rauðhöfði • Rjúpa • Sandlóa • Sendlingur • Sílamáfur • Skeiðönd • Skógarþröstur • Skúfönd • Skúmur • Smyrill • Sólskríkja • Spói • Stelkur • Stokkönd • Straumönd • Svartbakur • Tjaldur • Toppönd • Urtönd • Þúfutittlingur • Æður • Örn
Álft
Álftir verpa lítið við Mývatn sjálft. Fimm til sex hjón verpa við nærliggjandi vötn þ.á m. þrenn hjón á Arnarvatni einu. Mikið er þó af álftum á Mývatni því að hópar geldfugla halda þar til yfir sumarið, mest á Ytriflóa sunnan við Slútnes. Álftum fjölgar eftir því sem líður á sumarið og hafa stundum verið allt að 600 álftir á Mývatni síðsumars. Á haustin hverfa þessar álftir en aðrar koma í staðinn. Eru það álftafjölskyldur af heiðunum í kring og hafa margar þeirra vetursetu á Mývatni og Laxá. Vetrarstöðvar álftarinnar eru annars að mestu á Bretlandseyjum.
Duggönd
Duggönd hefur dvalið við Mývatn frá ómunatíð. Hefur hún að því best er vitað verið algengust andanna þar til skúföndin náði yfirhöndinni um 1970. Um 1400 og 2600 duggandarsteggir halda sig í Mývatnssveit á vorin. Um hásumarið fjölgar fuglunum því að duggendur koma úr nærliggjandi héruðum til að fella fjaðrir á Mývatni. Stærstu fellihópar duggandar eru á vestanverðum Syðriflóa. Ungarnir alast upp í dreifðum hópum, oft í fylgd með nokkrum kollum og virðist eignarhald á ungunum eitthvað losaralegt. Oft sjást duggandarkollur með bæði duggandar- og skúfandarunga í eftirdragi og svipaða sögu má segja um skúfandarkollur. Ætið er svipað því sem gerist hjá skúföndinni, en duggöndin leggur þó mun meira upp úr krabbadýrum en hún og tekur minna af bobbum og skeljum. Duggöndin er farfugl eins og flestar hinar endurnar og hefur vetursetu á Bretlandseyjum.
Endur (almennt)
Endur setja mestan svip á fuglalífið í Mývatnssveit, en óvíða í veröldinni má finna svo margar andategundir saman komnar á einum stað. Segja má að á Mývatni og Laxá sé sjaldgæf blanda samverkandi þátta sem stuðlar að óvenju ríkulegu fuglalífi. Frjósemi vatnsins og átuauðgi er mikilvægur þáttur, en meginmáli skiptir hve grunnt Mývatn er. Mývatn er tæplega 40 ferkílómetrar að flatarmáli og víðast hvar svo grunnt að kafendur ná til botns og geta nýtt botndýrin til átu. Nærri allur vatnsbotninn nýtist sem fæðuuppspretta fyrir vatnafugla. Ísland stendur á krossgötum þar sem mætast lífverur frá gamla heiminum og Vesturheimi svo og lífverur frá norðlægum slóðum og aðrar ættaðar sunnan úr heimi. Þetta setur mark sitt á tegundasamsetningu andanna á Mývatni og Laxá og er hvergi í heiminum samsvarandi tegundablöndu að finna. Húsönd og straumönd eru ættaðar úr Vesturheimi. Hávella, duggönd og hrafnsönd eru dæmi um norrænar tegundir. Ein önnur ástæða fyrir tegundafjölbreytni andanna er hið fjölbreytta umhverfi við Mývatn og Laxá. Allar tegundirnar finna eitthvað við sitt hæfi. Hentug varplönd eru fyrir margar tegundir, t.d. er kappnóg af holum sem húsendur þurfa til að verpa í. Vatnsbotninn er einnig fjölbreytilegur og átuskilyrði oftast góð einhvers staðar þótt fæða bregðist annars staðar. Tegundirnar eru fjölbreyttar en þær einnig áberandi liðmargar. Endur skipa samstæðan hóp tegunda sem í fljótu bragði virðast hafa líka lifnaðarhætti. Við nánari athugun kemur í ljós að lifnaðarhættir tegundanna eru býsna mismunandi. En fyrst skal litið á það sem tegundirnar eiga sameiginlegt. Einkennandi fyrir endurnar er hinn mikli litamunur kynjanna. Steggurinn klæðist skrautbúningi á haustin og heldur honum fram á mitt sumar. Um hásumarið eru steggirnir í svonefndum felubúningi og líkjast þá kollunum. Kollan skiptir ekki litum eftir árstímum.
Varp
Endur verpa fleiri eggjum en flestir aðrir fuglar, oftast á bilinu 6-9, en oft sjást hreiður með miklu fleiri eggjum þar sem fleiri kollur hafa orpið í sama hreiður. Andareggin eru tiltölulega stór og matarmikil og hafa Mývetningar frá alda öðli gengið varpið og tínt egg. Venja er að skilja 4 egg eftir í hverju hreiðri, 5 hjá sumum tegundum. Venjulega hefst varpið síðari hluta maí. Í köldum vorum seinkar varptímanum. Kollan verpir einu eggi á dag en byrjar ekki að liggja á fyrr en fullorpið er. Útungunartíminn er um það bil mánuður og sinnir kollan því ein.
Fellistöðvar
Þegar líður að miðjum útungunartímanum taka steggir og þær kollur sem ekki verpa að draga sig saman í hópa. Þessir fuglar halda á vissa staði, svonefndar fellistöðvar, þar sem fuglarnir dveljast á meðan fjaðrafellir stendur yfir. Endur missa allar flugfjaðrir í einu og eru því í sárum og ófleygar líkt og gæsir síðsumars. Mismunandi er eftir tegundum hvar fellistöðvarnar eru. Steggir sumra tegunda hverfa úr Mývatnssveit og leita til sjávar (t.d. straumönd og hrafnsönd), en aðrar tegundir halda kyrru fyrir á Mývatni. Berst þeim sumum liðsauki úr nærliggjandi héruðum (t.d. duggönd og húsönd). Ungamæðurnar fella ekki flugfjaðrir fyrr en eftir að þær yfirgefa ungana.
Uppeldi unganna
Kollurnar sjá einar um uppeldi unga. Þeir afla sér ætisins sjálfir en kollurnar leiða þá á bestu átumiðin. Algengt er að ungahópar blandist saman og með sumum tegundum (t.d. húsönd og toppönd) er ein kolla með hverjum ungahópi, hversu stór sem hann kann að vera, en með öðrum tegundum (t.d. duggönd og skúfönd) eru oft fleiri kollur saman með ungana.
Flestar andategundirnar eru farfuglar en mismunandi er eftir tegundum hvert farið er. Meginstraumurinn liggur til Bretlandseyja en undantekningar eru frá því. Vetrarvakirnar á lindasvæðum Mývatns og á Laxá gefa vissum tegundum færi á vetursetu, t.d. húsönd, stokkönd og gulönd.
Endur (sjaldgæfar)
Nokkrar andategundir sjást reglulega á Mývatni án þess að um varp sé að ræða nema í undantekningartilfellum. Algengust þeirra er hvinönd, en heita má að hún sjáist á vatninu allan ársins hring. Oftast eru þetta stakir steggir. Einn til tveir ljóshöfðasteggir eru nær árvissir, og alltaf má reikna með einni og einni skutulönd. Á 6. áratug síðustu aldar urpu skutulendur nokkrum sinnum við Mývatn. Á síðustu áratugum hafa hvítendur, hringendur og hrókendur sést annað slagið að sumarlagi.
Flórgoði
Flórgoða má að sönnu kallast einkennisfugl Mývatns og getur hann deilt þeim titli með húsöndinni. Um 250 pör voru talin verpa við Mývatn á seinni hluta 20. aldar, og var flórgoðinn fremur sjaldséður hér á landi utan Mývatnssveitar. En mikið hefur fjölgað í Mývatnsstofninum síðustu áratugi og gætir einnig fjölgunar víða annars staðar á landinu. Flórgoðinn kemur snemma á vorin eða fljótlega eftir að vakirnar fara að stækka. Heldur hann til á Mývatni uns ísa leysir á nærliggjandi vötnum og tjörnum þar sem heppilegt varpland er að finna. Mörg pör verpa þó við Mývatn sjálft, einkum við vestanverðan Ytriflóa. Ástarleikir flórgoðans eru eftirtektarverðir. Er þá stiginn dans á vatnsfletinum og tignarlegir fjaðurskúfar reistir. Eitt atriði í þeim dansi er að kafa eftir vatnaplöntum og sýna makanum, en vatnagróður er mikið notaður sem hreiðurefni. Skemmtilegast er að fylgjast með flórgoðanum snemma vors, eftir að ísa leysir og áður en störin tekur að spretta að ráði og hylja hreiður hans. Flórgoðinn gerir sér flothreiður úti á vatni þar sem störin vex síðar upp úr vatninu og felur hreiðrið. Flórgoðinn lifir mest á hornsíli og mýlirfum. Þótt ungarnir séu sundfærir nær strax eftir að þeir koma úr eggi eru þeir mataðir fyrstu vikurnar. Foreldrarnir bera þá oft á bakinu.
Gargönd
Gargönd, litla gráönd öðru nafni, er einn af einkennisfuglum Mývatns og Laxár. Er hún sárasjaldgæf annars staðar nema í Reykjavík og nágrenni, en þangað voru gargendur fluttar frá Mývatni fyrir alllöngu. Gargandarstofninn er ekki stór, en hefur farið sístækkandi á seinni árum. Af nítjándu-aldar heimildum um fuglalíf við Mývatn virðist mega ráða að gargöndin hafi ekki komið fram á sjónarsviðið fyrr en á síðari helmingi þeirrar aldar. Hún heldur sig yfirleitt á opnu vatni við vatnsbakka, en felur sig ekki í gróðri eins og öðrum gráöndum er tamt. Gargendur sjást sjaldan margar saman nema um fellitímann og á haustin, en þá safnast þær í hópa inni á Neslandavík og úti við eyjarnar í Syðriflóa.
Grafönd
Grafönd er alltíð við Mývatn, og nefnist hún langvíugráönd eða langvía á máli innfæddra. Á vorin er steggurinn auðþekktur á löngum hálsi, löngu odddregnu stéli og hvítum taum á brúnum haus. Líkt og aðrar gráendur eru þær mest á ferli í ljósaskiptunum. Grafendur sjást lítið á opnu vatni en halda sig í stararflóum og mýrasundum. Þó er algengt að þær sjáist úti á vatninu fram undan Grímsstöðum, en þar eru þær oft í ætisleit.
Gulönd
Gulönd, öðru nafni stóra toppönd, verður að teljast sjaldgæf á Mývatni að sumarlagi. Sjaldan eru þar meira en 2-3 pör. Ætla má að 6-10 pör haldi til á Laxá frá Mývatni niður að Laxárvirkjun við Brúar. Gulandarsteggir hverfa á braut á sumrin og er ekki vitað hvar þeir halda sig um fellitímann. Á veturna safnast gulendur á Mývatn allt frá nokkrum tugum upp í rúmlega tvö hundruð.
Hávella
Hávella er nokkuð áberandi á Mývatni þótt fjöldi steggja sé ekki meiri en 100-300. Á vorin ber mest á henni. Þá er talsverður bægslagangur þegar steggirnir reka óboðna gesti úr landhelginni. Hávellan er sannkallaður söngfugl meðal andanna. Steggurinn syngur þríhljóm í f-dúr og lætur hátt í honum eins og nafnið gefur til kynna. Eftirtektarvert er hve búningar steggjanna geta verið ólíkir, einkum er litamynstur á höfði margbreytilegt. Hávellan er sjófugl á veturna en kemur á Mývatn jafnskjótt og ísa tekur að leysa. Áberandi er hve mjög hún sækist eftir að éta krabbadýr, þ.e. kornátu og skötuorm, en mýlirfur skipa einnig háan sess í fæðuvalinu. Hávellur eru algengastar á Syðriflóa og er helst von að sjá þær á flóanum vestan- og sunnanverðum. Þær eru einnig algengar á tjörnunum sunnan og vestan við Mývatn, svo og á Grænavatni. Kollurnar verpa fyrstar kafandanna. Hávellusteggirnir fara flestir af Mývatni áður en ungarnir klekjast, og eru því fáir þar í júlí og ágúst. Hávellan er hánorrænn fugl, einn af einkennisfuglum freðmýranna og er Ísland á suðurmörkum útbreiðslu hennar.
Heiðagæs
Heiðagæsir fara um Mývatnssveit vor og haust. Eru stundum dágóðir hópar á ferð en algengara er að sjá fáar saman. Nokkurt heiðagæsavarp er meðfram Kráká og í Framengjum alllangt utan alfaraleiðar sunnan Mývatns og fer ört vaxandi. Sumarið 1986 varp heiðagæs í hólma í Mývatni og aftur árið eftir, og eru það fyrstu dæmi sem vitað er um að þessi tegund hafi tekið sér bólfestu við vatnið. Verpa heiðagæsir nú (2020) víða við vatnið.
Hettumáfur
Hettumáfurinn er algengur í Mývatnssveit. Hann er tiltölulega nýr af nálinni, byrjaði ekki að verpa við Mývatn fyrr en 1920. Nú verpur hettumáfur allvíða við vatnið, einkum í blautum mýrasundum bæði í eyjum og hólmum í vatninu og uppi á meginlandinu. Árið 1974 var ætlað að 1100 pör verptu við Mývatn á 60-70 stöðum. Stærsta varpið taldi um 200 pör. Virðist lítil breyting hafa orðið á fjölda hettumáfa hin síðari ár. Hettumáfurinn kemur í apríl og er með fyrstu farfuglunum í Mývatnssveit. Eru þá hornsíli aðalfæða hans. Þegar mýið kviknar seinna um vorið verður það efst á matseðlinum. Hettumáfurinn byrjar að verpa snemma í maí. Endur sækja talsvert í að verpa innan um hettumáfinn. Virðast þær hafa af því nokkurt öryggi því að hettumáfurinn lætur strax vita ef óboðnir gestir koma nærri og getur verið aðgangsharður við þá. Fyrir kemur að hettumáfar taka egg og unga annarra fugla og fyrir það hefur hann áunnið sér nokkrar óvinsældir, og er sums staðar reynt að uppræta varp þeirra. Annars staðar við vatnið er reynt að halda í hettumáfinn, enda hafa menn sannreynt að endurnar laðast að varpi hans. Hettumáfsvarp er gengið líkt og andavarpið og egg tínd til átu. Eru öll eggin tekin í fyrsu göngu og verpur hettumáfurinn þá aftur. Í síðari göngum er a.m.k. eitt egg skilið eftir í hverju hreiðri.
Himbrimi
Himbrimi, eða brúsi eins og hann er jafnan kallaður í Mývatnssveit, er ein þeirra fáu fuglategunda hér á landi sem ættaðar eru frá Vesturheimi. Nokkur hjón verpa við Mývatn sjálft og ein til þrenn til viðbótar við nálæg vötn. Himbrimagól berst langar leiðir og kallast fuglarnir oft á vatnshornanna milli. Aðrir vatnafuglar hræðast himbrimann, enda er hann illskeyttur í nágrenni við hreiður sitt.
Hrafn
Fáein hrafnshreiður eru í Mývatnssveit. Á vorin aflar hrafninn nokkuð fanga í varplöndunum við vatnið, en heimahrafnarnir eru sjaldan stórtækir í þeim efnum samanborið við þau býsn þegar hópar geldhrafna fara um fuglavörpin. Að því eru oft nokkur brögð en þó áraskipti. Hrafnar eru oft skotnir þegar færi gefst, en sumir kjósa að láta þá í friði og telja þá veita nokkurt viðnám geldum óaldarhröfnum.
Hrafnsönd
Hrafnsönd er ein þeirra tegunda sem eru algengar á Mývatni en sárasjaldgæfar annars staðar hér á landi. Fjöldi steggja á Mývatni er 2-500, og eru þeir jafnan fleiri en kollur. Hrafnsöndin er stílhreinn og virðulegur fugl tilsýndar. Hún ber höfuðið hátt, steggurinn biksvartur með dálítinn gulan blett ofan á nefinu, kollan ljós í vöngum með dökka hettu. Hrafnsöndin heldur sig einkum á vestan- og sunnanverðum Syðriflóa, sést sjaldnar á Ytriflóa. Fæðan er einkum mýlirfur og krabbadýr. Hrafnsöndin sækist meira eftir krabbadýrum en gengur og gerist með flestum öðrum öndum. Hrafnsandarsteggir hverfa af Mývatni á miðju sumri og fella flugfjaðrir á sjó, líklega við strendur Evrópu. Með þeim fara kollur sem ekki hafa orpið. Ungamæðurnar fara ekki fyrr en í ágúst, en þá eru ungarnir orðnir sæmilega stálpaðir en ófleygir. Þeir verða síðan að koma sér á eigin spýtur til vetrarstöðvanna við Evrópustrendur. Hrafnsöndin er norrænn fugl sem m.a verpur í Skandinavíu en ekki sunnan Eystrasalts.
Húsönd
Húsönd er sannkallaður einkennisfugl Mývatns. Fáir aðrir íslenskir fuglar eru jafn háðir þeim lífsskilyrðum sem Mývatn og Laxá hafa upp á að bjóða. Húsöndin er með stærri öndum, en stærðarmunur kynjanna er einnig mikill. Steggirnir eru um 50% þyngri en kollurnar. Körlunum veitir ekkert af stærðinni því að þeir eru áflogagjarnir í meira lagi.
Húsendur halda sig á Mývatni og Laxá allan ársins hring. Vakir á vetrarísnum eru nægilega stórar til að fóstra drjúgan hluta stofnsins.
Alltaf fara þó á þriðja hundrað fuglar á önnur vötn á veturna, einkum á vötn á Suðurlandi. Heildarstofn húsandarinnar hér á landi er ekki stór, um 2000 fuglar. Eru steggir oftast í miklum meirihluta. Húsöndin hefur allsérstæða varphætti. Þegar halla tekur vetri fara varpfuglarnir að helga sér vatnsskika sem karlarnir verja með ráðum og dáð (mynd). Er sem ósýnilegar línur séu dregnar á vatnsflötinn, og flestir aðrir fuglar eru umsvifalaust reknir á braut ef þeir fara inn fyrir þær. Eftirsóttustu svæðin eru efst á Laxárkvíslum og á Kálfastrandarvogum og þar er háð hörð landhelgisbarátta. Þar sem mest áta er á vatnsbotninum verða skikarnir minnstir eða um 500 fermetrar en geta orðið allt að 40 þúsund fermetrar á lakari svæðum. Húsandarsteggirnir beita ýmsum brögðum til að verja landhelgi sína. Oft láta þeir nægja að leggjast flatir með framteygðan háls og beina höfðinu að hinum óboðna gesti. Hverfi gesturinn ekki á braut við svo búið, syndir óðalsherrann ógnandi í átt að honum. Er skammt er ófarið kafar ábúandinn, og þá er flestum gestinum nóg boðið. Forði hann sér ekki má hann eiga von á að verða bitinn óþyrmilega í fæturna. Þetta atferli þróast oft upp í hrein áflog. Í landhelginni hefur húsandarkollan trygga fæðuuppsprettu. Vatnsskikinn liggur oftast að landi, en þó getur hreiðurstæðið verið alllangt undan, allt að 2-3 kílómetra í burtu. Í apríl taka kollurnar að skoða vænleg hreiðurstæði. Fljúga þær yfirleitt nokkrar saman snemma á morgnana um nærliggjandi hóla eða byggingar. Þær kvaka hátt og skríða inn og út um hverja smugu sem gæti komið til greina sem framtíðarbústaður. Sjást húsendur oft sitja á húsþökum og gægjast niður í reykháfa meðan á þessu stendur. Stundum kemur fyrir að húsendur detta ofan í reykháfa af þessum sökum. Alltaf eru einhverjar húsendur sem finna sér hreiðurstað í veggjahleðslum eða þekjum útihúsa og kemur nafnið líklega til af því. Um miðja síðustu öld hófst sá siður að útbúa sérstaka hreiðurkassa fyrir endurnar innan við göt á steinsteyptum hlöðu- og fjárhúsveggjum (myndir). Áætlað er að tíunda hvert húsandarhreiður í Mývatnssveit sé nú í sérsmíðuðum varpkössum af þessu tagi. Önnur hreiður eru flest í holum og sprungum í hrauninu við vatnið.
Húsandarkollurnar láta sér ekki allar nægja að verpa í eigin hreiður. Nokkur brögð eru að því að þær verpi í hreiðrin hver hjá annarri. Er talið að þannig auki þær líkurnar á því að eignast einhver afkvæmi ef hreiður þeirra sjálfra skyldu misfarast.
Þegar ungarnir koma úr eggjunum er mánuður liðinn frá því kollan lagðist á og komið fram undir 2. viku júlímánaðar. Á þessum tíma er urmull bitmýslirfa í Laxá. Stærstu lirfurnar eru í útfalli árinnar og þangað koma húsandarkollur með unga hvaðanæva að úr Mývatnssveit. Verður þar talsverður handagangur í öskjunni því að allar vilja kollurnar komast að og helga sér einhvern skika af ánni fyrir unga sína (mynd). Í átökum því samfara blandast oft ungahóparnir (mynd) og margar kollur hverfa fljótt af vettvangi eftir að hafa misst alla unga sína til einhverrar annarrar kollu. Á bestu átusvæðunum sjást stundum kollur með yfir 100 unga og myndi víst sumum finnast það jaðra við ómegð. Nokkuð af húsandarungum elst upp í vogunum við Kálfaströnd og þar í nágrenninu. Í ágúst, þegar megnið af bitmýinu er flogið upp úr Laxá, flytur hluti unganna sig upp á Mývatn. Húsandarsteggirnir láta sig ungauppeldi engu varða. Þeir safnast saman í karlaklúbba strax og líður á útungunartímann og byrja að skipta um fiður. Eins og aðrar endur eru húsendurnar í sárum í júlí og ágúst. Seint um haustið fá húsandarkarlarnir loks skrautbúning sinn að nýju, og verða þá auðþekktir á hinu sérkennilega svart-hvíta mynstri og hvítum hálfmánalaga bletti framan við augað.
Húsöndin hefur mjög óvenjulega útbreiðslu í heiminum. Hún er algeng í norðanverðum Klettafjöllum og verpur þar í holum í trjám. Þar fyrir austan þekkjast ekki húsendur fyrr en kemur austast í Kanada. Loks er þessi litli stofn á Mývatni sem hér hefur verið gerður að umtalsefni. Húsöndin sést sárasjaldan í Evrópu og er því ein örfárra fuglategunda sem öruggt má telja að séu hingað komnar vestan um haf.
Jaðrakan
Jaðrakan, einkennisfugl sunnlenskra mýra, hefur ekki verið ýkja algengur við Mývatn en fer nú hratt fjölgandi. Þessi fugl var óþekktur við Mývatn fyrir 1960, en hann hefur verið að breiðast vestur og norður um land á löngum tíma. Þessi ryðrauði háfætti fugl setur óneitanlega skemmtilegan svip á mýrarnar við Mývatn, en þar er hans helst von.
Kría
Kríuvarp er allvíða umhverfis Mývatn en í smáum stíl. Árið 1974 töldust vera tæplega 300 varppör á svæðinu og virðist fjöldinn svipaður enn. Krían kemur fyrri hluta maí, en stakar kríur sjást alloft við Mývatn um hálfum mánuði fyrr. Krían lifir jöfnum höndum á hornsíli og mýi. Stundum má sjá kríur ræna hornsíli af flórgoðum. Kríurnar eru sérlega fimar við að taka mýflugur úr vatnsyfirborðinu rétt í þann mund sem þær skríða úr púpuhýðinu, og kríuger vísa þannig á staði þar sem mý er að kvikna hverju sinni.
Lómur
Lómur verpur á nokkrum stöðum við tjarnir á Mývatnssvæðinu. Sækir hann á Mývatn og stundum Laxá til matfanga og eftir að ungar eru komnir má oft sjá lóma á flugi með smásilung í gogginum. Atferli lóms gagnvart óboðnum tegundasystkinum sínum er með furðulegra sjónarspili og er vert að staldra við og fylgjast með ef þrír eða fleiri fuglar sjást saman nærri landi.
Lóuþræll
Lóuþræl þekkja fáir, en samt er hann með algengustu mófuglunum hér á landi, og er Mývatnssveit engin undantekning. Snörlandi væl hans heyrist langt að, en fuglinn er lítið gefinn fyrir að auglýsa sig með öðrum hætti. Lóuþrælar sjást oft í ætisleit í malarfjörunum við Mývatn og í grjóti með bökkum Laxár.
Músarrindill
Músarrindill er ekki algengur við Mývatn. Sést hann stöku sinnum við Laxá, en einkum þó í hrauninu austan vatnsins, mest í Höfða. Nokkrir músarrindlar eru búsettir í Varastaðaskógi í Laxárdal, og kveða þeir óspart í kapp við árniðinn, enda er músarrindillinn með afbrigðum raddsterkur og mikill söngfugl.
Óðinshani
Óðinshani er meðal þeirra fugla sem mest eru áberandi við Mývatn. Þessi síkviki sundfugl nefnist raunar sundhani á mývetnskri tungu. Ástarleikir þeirra hleypa lífi í sérhverja tjörn og þar sem mý kviknar á vatnsyfirborðinu er jafnan aragrúi sundhana. Eru þeir furðu skeytingarlausir um mannaferðir. Í ágústmánuði eru oft tilkomumiklir sundhanaflotar á suðaustanverðu Mývatni og Grænavatni. Á þeim tíma eru sundhanarnir að komast í hvítan vetrarbúning og brátt komið að brottför þeirra til suðlægra hafsvæða þar sem þeir hafa vetursetu.
Rauðhöfði
Rauðhöfði, eða rauðhöfðagráönd á mývetnsku, er algengasta gráöndin á Mývatni. Milli 500 og 1900 pör eru þar á vorin. Rauðhöfðinn er farfugl eins og flestar hinar endurnar. Snemma vors heldur hann sig mikið á túnum, en um leið og mý byrjar að kvikna hópast hann út á vatn til að tína mýið úr vatnsyfirborðinu. Í hvassviðri má oft sjá rauðhöfðahópa áveðurs við vatnsbakkana þar sem þeir nýta sér æti er skolast að landi. Í júlí koma rauðhöfðasteggir víðs vegar að til að fella flugfjaðrir á Mývatni. Eru þá stundum stórir hópar í ætisleit í Neslandavík og á Ytriflóa. Endurnar hnappast oft í kringum álftir og éta vatnagróður sem þær rífa upp og skilja eftir. Stundum sjást hópar af rauðhöfðum yfir kafandi skúföndum, og eru þeir þá að tína æti sem skúfendurnar róta upp af botninum. Á meðan rauðhöfðinn er í sárum heldur han sig í hávöxnum gróðri við vatns- eða tjarnabakkana og lætur ekki á sér kræla. Rauðhöfðar fara frá Mývatni á haustin, einkum til Bretlandseyja. Nokkur brögð eru þó að því að ungfuglar fari vestur um haf. Er það merkilegt því að rauðhöfðinn er Evrópu- og Asíutegund. Kort af vetrarstöðvum.
Rjúpa
Talsvert er af rjúpu í næsta nágrenni Mývatns. Þingeysku heiðarnar eru vel grónar og víðlendar og eru eitt aðalkjörlendi rjúpunnar á Íslandi. Í góðum rjúpnaárum, t.d. 1986-1988, sjást tugir rjúpna við veginn umhverfis vatnið ef hann er ekinn í ljósaskiptunum að vorlagi. Einmitt þá sjást rjúpukarrarnir vel því að þeir eru hvítir og jörð oftast orðin snjólaus. Nota þeir hvíta litinn í auglýsingaskyni og sitja á áberandi stöðum, t.d. þúfum eða hraunklettum. Getur fálkinn þá orðið þeim skeinuhættur.
Skeiðönd
Skeiðendur eru án efa sjaldgæfastar verpandi anda á Mývatni. Á hverju vori sjást 1-3 steggir, nokkuð fleiri á seinni árum (2018-20) og má telja víst að einhverjar skeiðendur verpi í sveitinni að staðaldri. Skeiðendur eru sjaldgæfar á Íslandi. Talið er að þær hafi byrjað að verpa hérlendis skömmu eftir aldamótin 1900 en ekki fyrr en upp úr 1930 í Mývatnssveit.
Skúfönd
Skúfönd, eða litla-duggönd eins og mývetningar nefna hana gjarnan, er algengasta öndin á Mývatni. Hún byrjaði að sjást á Mývatni skömmu fyrir aldamótin 1900 og hefur henni fjölgað mikið síðan. Um 1970 skaust hún upp fyrir duggöndina í fjölda og varð þar með algengasta andartegundin á Mývatni. Um 2000 og 6000 skúfandarsteggir sjást á vorin í Mývatnssveit, en fjöldi para er eitthvað lægri því að steggir eru fleiri en kollur. Skúfendurnar halda sig helst í dreifðum hópum úti á vatni, en á vorin er algengt að sjá þær raða sér á tjarnabakka eða ísskarir. Skúföndin er með fyrstu farfuglunum á vorin, kemur um leið og vakir taka að stækka. Skúföndin er kafönd og er æti hennar einkum mýlirfur, en einnig tekur hún vatnabobba og skeljar svo og krabbadýr. Hornsíli tekur hún endrum og eins. Skúfandarhreiðrin eru allþétt á varpsvæðunum líkt og gerist með duggöndum og verpa þessar náskyldu tegundir hver innan um aðra.
Sólskríkja
Sólskríkja er meðal algengustu spörfuglanna. Söngur hennar á vorin er nokkuð sjaldgæf tónlist í byggð hér á landi því að óvíða hefur þessi hálendisfugl fasta búsetu í mannabyggð. Söngurinn tekur að hljóma í apríl, en þá eru karlfuglarnir enn í vetrarbúningi sínum. Sitja þeir efst á hólum og klettum og þreyta sönglistina. Bregðast þeir ókvæða við ef aðrir karlfuglar koma þar nærri. Í maí klæðast karlfuglarnir hinum svarthvíta sólskríkjubúningi. Hreiður gera fuglarnir í holum og glufum í hrauninu, oft innan í gígunum. Eru þau oftast vel falin og svo langt frá holuopinu að ógjörningur er að koma auga á þau. Snjótittlingar (en svo nefnist sólskríkjan á veturna) halda til við Mývatn allan veturinn. Steindepill, eða steinklappa, er ekki eins algengur og sólskríkjan. Hann er mikill söngfugl svo að talsvert getur borið á honum eftir að hann kemur á vorin, en steindepillinn getur varla talist sérlega algengur í Mývatnssveit. Dálítið verpur af honum í hraununum austan Mývatns.
Stelkur
Stelkur er með algengustu mófuglunum við Mývatn. Stelkurinn er meðal fyrstu farfuglanna í Mývatnssveit á vorin, kemur í apríl. Hið þýða kliri-liri hljóð hans tengist því vorkomunni, ekki síður en lóukvakið. Oft sjást stelkshópar við vatnið þegar mý er að kvikna eða þar sem aldan skolar smádýrum á land. Önnur stelkstegund, flóastelkur, hefur orpið í Mývatnssveit. Er flóastelkurinn með sjaldgæfustu varpfuglum hér á landi.
Stokkönd
Stokkönd, grænhöfði eða stóra-gráönd eins og Mývetningar kalla hana, er allalgeng á Mývatni á sumrin. Slæðingur af stokkönd hefur og vetursetu í Mývatnssveit. Þær halda sig mest á engjunum umhverfis vatnið eða úti á vatni en sjaldan langt frá bökkunum. Einnig eru þær algengar á Laxá, og þótt þær eigi að heita buslendur sjást þær stundum kafa í ána. Eins og aðrar gráendur verpur stokköndin snemma, og aldrei í þéttu varpi eins og títt er um kafendur.
Staumönd
Straumönd er kapítuli út af fyrir sig. Á veturna dvelur hún á sjó, einkum við brimasamar strendur. Í apríl byrja straumendur að sjást á Laxá en mest kemur af þeim í maíbyrjun. Straumöndin er algeng á Laxá og Kráká, en sést nær aldrei á Mývatni. Á efsta hluta Laxár, þ.e. þeim hluta sem er ofan Laxárdals, er þéttleikinn meiri en þekkist annars staðar í heiminum. Pörin sitja oft langtímum saman á árbakkanum eða á steinum úti í ánni. Algengt er að óparaður steggur fylgi pari eftir. Skrautbúningur steggjanna fellur oft ágætlega inn í umhverfið svo að erfitt getur verið að koma auga á endurnar.
Ætisleit straumandanna í flúðum og strengjum árinnar er aðdáunarefni. Endurnar kafa óhikað í mestu iðuna. Eftir miklu er að slægjast því að bitmýslirfur eru þar í ríkum mæli. Straumöndin er sérstaklega spök á þessum árstíma. Sérkennilegt er hve straumöndin er bundin rennandi vatni því að hún víkur sjaldan nema örfáa metra frá ánni. Um miðjan júní, eða nokkru eftir að kollurnar hafa lagst á eggin, hverfa steggirnir til sjávar á ný þar sem þeir fella flugfjaðrir. Í ágúst er algengt að sjá allstóra kolluhópa á Laxá, einkum á Syðstukvísl, Miðkvísl og á móts við Kleif skammt ofan Arnarvatns. Ef vel árar fyrir bitmýslirfur í ánni komast yfir 100 straumandarungar á legg á Laxá ofan Laxárdals. Í slökum bitmýsárum halda aðeins sárafáir ungar lífi fram á haust.
Straumendur eru ekki í Evrópu. Aðalútbreiðsla þeirra er í Austur-Síbiríu og vestanverðri Norður-Ameríku. Straumendur eru hér og hvar við ár um allt land, en þungamiðja íslenska stofnsins er tvímælalaust við Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu.
Toppönd
Toppönd er önnur tveggja fiskiandategunda á Mývatni. Um 280 og 540 steggir halda til á vatninu yfir sumarið en þeim berst umtalsverður liðsauki um fellitímann. Sum ár hafa verið yfir 700 toppendur í einum hóp úti á Syðriflóa. Toppöndin verpur í holum í hrauninu. Þegar ungarnir koma úr eggjunum, sem er nokkuð seint miðað við aðrar endur, fara þeir ásamt mæðrum sínum á austanverðan Ytriflóa. Geta þar myndast miklir ungaflotar, og er ein kolla með hvern hóp. Hornsíli eru aðalfæða toppandarinnar.
Urtönd
Urtönd er einkar algeng í Suður Þingeyjarsýslu og er hún talsvert áberandi við Mývatn. Einkum verður hennar vart á vorin áður en votlendisgróðurinn fer að spretta að ráði og fuglarnir geta skýlt sér í honum. Urtin, eins og hún er stundum kölluð, sést þá oft á síkjum og við vatnsbakka. Hún er langminnsta öndin.
Þúfutittlingur
Þúfutittlingurinn er allalgengur í Mývatnssveit og dillandi flugsöngur hans heyrist á vorin hvarvetna þar sem kjörlendið, þurra grasmóa, er að finna. Á haustin eru þúfutittlingar sérlega áberandi, en þá virðast þeir fara um Mývatnssveit á leið sinni úr lágsveitunum norðanlands til vetrarstöðvanna suður í löndum.
Örn
Nokkur örnefni við Mývatn minna á örninn, t.d. Arnarbæli, Arngarðshólar, Arnarey, Arnarhólar og Arnarvatn. Ernir voru viðloðandi vatnið og ána fyrir aldamótin 1900, en um aldamótin hurfu þeir og telst það tíðindum sæta ef örn sést á svæðinu nú á dögum. Skriflegar heimildir gefa í skyn að ernir hafi orpið í Mývatnssveit. Eftirtektarvert er að a.m.k. fjögur arnarörnefnanna eiga við hóla sem standa við vetrarvakir og eru prýðisgóðir útsýnisstaðir yfir þær. Er freistandi að draga þá ályktun að þar hafi ernir gjarnan setið á veturna og virt fyrir sér fuglalífið af nokkrum áhuga.