Jarðsaga

GossagaGervigígar • Strípar

Gossaga

Í Mývatnssveit hafa jarðeldar í bland við vatn skapað einstakt umhverfi fágætra hraunmyndana sem fóstrar auðugt og fjölbreytt vatnalíf.

Sveitin er á vesturjaðri eldvirka beltisins, sem liggur frá norðri til suðurs um Norðausturland og er framhald mið-Atlantshafshryggjarins. Allar jarðmyndanir eru mjög ungar, þ.e. frá ísöld og nútíma. Á hlýskeiðum ísaldar runnu hraun þau, sem nú mynda berggrunn heiðanna vestur af Mývatnssveit og Laxárdal.

Fjallahringurinn er að mestu myndaður við eldgos undir jökli á jökulskeiðum. Gos sem náðu upp í gegnum jökulinn mynduðu móbergsstapa (Bláfjall, Sellandafjall, Búrfell, Gæsafjöll). Næðu gosin ekki að bræða sig í gegnum jökulinn mynduðust móbergshryggir (Vindbelgjarfjall, Námafjall, Dalfjall, Hvannfell).

Undir ísaldarlok, fyrir um 10 þúsund árum, stóð jökull lengi í Mývatnslægðinni og myndaði jökulgarða og sanda norðan hennar. Hæðirnar milli Reykjahlíðar og Grímsstaða eru ummerki þess tíma. Jökullón mun hafa staðið í Mývatnslægðinni þar til ísaldarjökullinn hörfaði frá núverandi farvegi Laxár.

Eldvirkni austan við Mývatn eftir ísöld skiptist í tvö skeið með löngu hléi  á milli. Hið fyrra, Lúdentsskeiðið, hófst á síðjökultíma og náði fram yfir ísaldarlok. Gjóskugígurinn Lúdent er frá  þeim tíma. Mörg, fremur lítil sprungugos urðu á þessu tímabili og hafa verið aðgreind um 20 hraun og gosstöðvar frá Lúdentsskeiðinu, sem lauk fyrir um 8000 árum.
Fyrir um 3800 árum varð dyngjugos 25 km suðaustur af Mývatni. Þá myndaðist Ketildyngja og hraun frá  henni náði að renna alla leið í Mývatnssveit og áfram niður Laxárdal og Aðaldal. Þetta hraun, Laxárhraunið eldra, stíflaði upp hið fyrsta Mývatn, sem var svipað að stærð og núverandi vatn.

Síðara eldvirkniskeiðið er kennt við Hverfjall (Hverfell) en það hófst með miklu en skammvinnu gosi sem myndaði fjallið fyrir um 2900 árum. Jarðbaðshólar gusu skömmu síðar og rann þá hraunið sem nú er milli Reykjahlíðar og Voga. Um 200 árum síðar kom geysimikið hraun, Laxárhraun yngra, úr Þrengsla- og Lúdentarborgum austan vatnsins. Það flæddi yfir suðurhluta sveitarinnar, yfir þáverandi Mývatn, niður Laxárdal og í sjó fram í Aðaldal. Gervigígarnir við Mývatn mynduðust við gufugos þegar hraunið rann út í hið forna vatn. Dimmuborgir og hraundrangarnir við Kálfaströnd og Höfða eru minjar tæmdra hrauntjarna í þessu hrauni. Hraunið myndaði núverandi Mývatn, en einnig Sandvatn, Grænavatn og Arnarvatn.

Nokkur fleiri sprungugos urðu  á Hverfjallsskeiði en tvö hin síðustu voru Mývatnseldar 1724-29 og Kröflueldar 1975-84. Mývatnseldar hófust með sprengigosi er myndaði Víti, en síðar rann hraun frá Leirhnjúk niður í Mývatn milli Grímsstaða og Reykjahlíðar. Mývatnseldum svipaði mjög til þeirra umbrota sem urðu í Kröflueldum. Mývatns- og Kröflueldar eiga upptök í megineldstöð sem liggur milli Kröflu og Gæsafjalla. Hún afmarkast af hringlaga öskjusprungum, en askjan sjálf hefur fyllst af gosefnum. Undir Kröflueldstöðinni er kvikuhólf. Þegar eldstöðin er virk fara kvikuhlaup út í sprungusveim sem liggur frá norðri til suðurs í gegnum eldstöðina. Í Kröflueldum skiptust á tímabil með hægfara landrisi og hröðu landsigi með kvikuhlaupi, landgliðnun, jarðskjálftum og eldgosum.  Megineldstöð og sprungusveimurinn sem tengist henni nefnast einu nafni eldstöðvakerfi.  Kröflukerfið er eitt margra kerfa sem til samans mynda eldvirka beltið á Íslandi.

Nokkur líparítfjöll eru á jaðri Kröflueldstöðvarinnar (Hlíðarfjall, Jörundur, Hrafntinnuhryggur). Dyngjufjöll með Öskju, eru önnur megineldstöð í fjallahring Mývatnssveitar.

Gervigígar

Gervigígar eru sjaldgæfar hraunmyndanir, sem myndast við gufusprengingar þar sem þunnfljótandi hraun rennur út yfir vötn og mýrar (eða út í sjó á Hawaii). Gervigígar á Íslandi tengjast flestir stórum flæðigosum (Laxárhraun yngra, Þjórsárhraun, Eldgjárhraun, Leitahraun). Við Mývatn eru þeir sérlega formfagrir og mynda umgjörð vatnsins. Gígarnir eru í þyrpingum og mynda stærstu eyjarnar í vatninu. Þeir eru viðkvæmir fyrir traðki og þarf hvarvetna að gera sérstakar ráðstafanir til að varðveita þá þar sem einhver umferð er. Margir gígar hafa verið skemmdir með malarnámi, byggingum og vegagerð, en allmargar gígaþyrpingar eru enn ágætlega varðveittar. Skútustaðagígar eru friðaðir sem náttúruvætti.

Hver einstakur gígur myndast við síendurteknar sprengingar sem þeyta upp gjalli og hraunslettum í bland við vatnaset. Þar sem gufa er mikil hlaðast upp gjallhólar en þar sem minni gufa er myndast klepragígar. Margir gjallgígar hafa innri gíg úr hraunkleprum. Gígarnir mynda þyrpingar, oft 5-10 saman, en stundum miklu fleiri og geta gígskálarnar skarast mikið. Í flestum hólaþyrpingum við Mývatn eru gígarnir af ýmsum gerðum, gjallgígar í bland við klepragíga.
Gervigígar og gervigígaþyrpingar við Mývatn eru tvímælalaust meðal merkustu náttúruminja landsins. Hvergi á landinu eru gígar af þessu tagi jafn stórir, fjölbreyttir og formfagrir. Engar náttúrumyndanir setja heldur eins mikinn og sérstæðan svip á umhverfi Mývatns og þessir gíghólar, sem heita má að sé raðað umhverfis Syðriflóa og mynda auk þess flestar eyjar í vatninu. Gervigígar eða menjar um þá finnast allt frá Sandvatni í vestri og austur að Dimmuborgum.
Gíghólarnir sem standa næst vatninu eru fagurgrænir og þaktir gróskumiklum gróðri nema þar sem vatnið nær að brjóta á þeim. Gróðursældin stafar af rykmýinu sem leitar upp á hólana til mökunar og deyr oft þar í hrönnum.

Gjallnám og vegagerð er helsta ógnun við gervigígana. Nokkrir gígar hafa horfið og aðrir verið skertir nokkuð. Tún hafa verið ræktuð á mörgum gíganna.

Gervigígarnir hafa valdið jarðfræðingum meiri heilabrotum en flest annað í sveitinni og hafa sprottið upp margar og mismunandi skýringar á tilurð þeirra. Þorvaldur Thoroddsen virðist hafa verið mjög nálægt því að skilja upprunann, en Sigurður Þórarinsson varð fyrstur manna til að gera rækilega grein fyrir eðli þeirra, þótt skýring á myndun þeirra hafi verið komin fram fyrr.
Gervigíganafnið er komið frá Sigurði Þórarinssyni, en hann nefndi þessa gerð gíga pseudocrater á ensku. Þótt þessi nafngift hafi fest rætur hérlendis er svo ekki í hópi erlendra jarðfræðinga sem finnst ekkert gervilegt við gígana og kjósa að nota hugtakið rootless vents í staðinn. Þar er vísað til þess að þeir hafa ekki venjulegar rætur, þ.e. lóðrétta aðfærsluæð eins og þegar um hefðbundin eldgos er að ræða. Á Hawaii nefnast gervigígar littoral cones eða strandgígar, sem vísar til þess að þeir myndast niðri við sjó. Hugtakið rootless vent reynist einnig óheppilegt, því að hugmyndir manna um aðfærsluæðar gíganna hafa breyst. Sigurður Þórarinsson gerði ráð fyrir að gígarnir mynduðust einungis úr því hraunbráði sem upphaflega hefði breiðst yfir vatnsósa jarðveg eða hraun. Nú á sú skýringarhugmynd meira fylgi að fagna að gervigosin fái efni sitt um láréttar aðfærsluæðar, lokaðar hraunrásir, sem liggja alla leið frá sjálfum gosstöðvunum og að frambrún vaxandi hraunbreiðunnar. Með þessu móti má skýra óvenju mikið efnismagn sumra gervigíganna, – þeir eru að fá byggingarefni lengi eftir að hraunbreiðan í kring hefur stöðvast. Rennsli í miklum flæðigosum verður að miklu leyti í lokuðum rásum í hrauninu. Ef rásirnar rofna og hraunbráðin kemst í snertingu við vatnsósa set verða gufusprengingar sem tæta hraunbráðina í sundur og mynda gjall sem þeytist upp ásamt hraunslettum og gusum af seti. Hraunrásin heldur áfram að flytja hraunbráð að gervigosinu. Fyrst hlaðast upp gjallbingir, oft sæmilega vel lagskiptir, með miklu vatnaseti í bland. Þegar líður á gosið og vatnsmagn minnkar verður gjallið grófara, og að lokum slettist einungis upp bráðið hraun með molum af hálfbráðnu seti. Gosið getur minnkað í áföngum og myndast þá minni gígar innan í þeim stærri.

Í setinu sem upp kemur í gosinu eru oftast kísilþörungaskeljar sem gefa til kynna hvers konar votlendi hraunið rann yfir. Kísilþörungar í Mývatnsgígunum sýna að þar var stórt stöðuvatn sem hraunið rann út í, en ekki mýri eða kerfi smátjarna eins og oft er látið í veðri vaka (Árni Einarsson 1982).

Gervigígar myndast helst í stórum flæðigosum, en þau hafa orðið á mjög fáum stöðum á Jörðinni á seinni jarðsögutímum. Gervigígar eru aðeins þekktir með vissu á einum stað utan Íslands, en það er á Hawaii, og þar hafa menn oft orðið vitni að myndun þeirra. Þar myndast þeir þegar hraun rennur út í sjó. Þó nokkur áhugi hefur kviknað á gervigígum eftir að ljósmyndir frá Mars sýndu gígasvæði sem minna nokkuð á gervigíga á Íslandi. Hafa rök verið færð fyrir því að þarna sé um raunverulega gervigíga að ræða og þeir hafi myndast þar sem hraun hafi runnið yfir sífrera.

Strípar

Strípar eru mýventskt nafn á hraundröngum sem standa eftir þegar bráðnar hrauntjarnir tæmast. Drangarnir myndast þannig að gufa sem streymir í mjóum strók upp í gegnum hraunbráðina kælir bráðina og pípa úr storknu hrauni myndast. Þegar hrauntjörnin tæmist (við það stíflan sem heldur henni upp brestur) standa pípurnar eftir sem drangar, smurðir að utan með sléttri hraunbráð. Storkið yfirborð tjarnarinnar sígur og sjást oft klóruför eftir hraunhellurnar þar sem þær hafa strokist við hranubráðina. Strípar virðast algengir á hafsbotni, á rekhryggjum úthafanna, en sjaldgæfir á landi. Dimmuborgir og Klasar og Kálfastrandarstrípar eru þekktustu stríparnir, en í Hvannstóði á Kröflusvæðinu eru einnig fagrir strípar. Strípar þekkjast einnig í Skælingum á Suðurlandi og á Reykjanesi.