Afkoma andarunga á Mývatni var könnuð í gær. Í ljós kom að aðeins örfáir ungar eru á vatninu, en á þessum árstíma ættu að vera tugir þúsunda unga á sveimi. Allmikið er af dauðum ungum á bökkunum og flestir ungar sem sáust á lífi voru rétt nýkomnir á vatnið. Það vekur athygli að nær engir ungar eru heldur á Laxá í Mývatnssveit. Sýnatökur úr Mývatni benda til að mýstofnar vatnsins séu að gefa eftir. Enn er of snemmt að slá því föstu að um lífríkishrun sé að ræða af þeirri stærðargráðu sem orðið hefur á u.þ.b. sjö ára fresti síðastliðin 45 ár, en náttúrurannsóknastöðin fylgist náið með þróuninni.