Árni á Laxárbakka er látinn. Hann starfaði sem húsvörður við Náttúrurannsóknastöðina allt frá upphafi 1974 þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir fyrir örfáum árum. Hann var vinur allra sem þar störfuðu, – og þeir eru æði margir, – og lét það ekkert á sig fá þótt sumir töluðu framandi tungur. Hann gat alltaf stillt inn á rétta bylgjulengd. Hlý góðmennska, kankvísi og hláturmildi fylgdi honum. Hann var vel að sér  og fylgdist af áhuga með fólki og fénaði, og trúmennsku hans voru engin takmörk sett.  Við munum sakna vinar í stað.