Lek rotþró á bakka Mývatns

Rotþrær og hreinsun frárennslis við Mývatn og Laxá er í brennidepli þessi misserin. Ein mikilvæg spurning er hvað skuli hreinsa. Er nóg að hreinsa annað hvort nitur (N) eða fosfór (P) eða þarf að hreinsa hvort tveggja? Svarið er að NAUÐSYNLEGT ER AÐ HREINSA BÆÐI NITUR OG FOSFÓR. Ástæðan fyrir því að næringarefni eins og N og P eru hreinsuð er sú að losun þeirra í vötn leiðir til óhóflegs vaxtar þörunga og baktería sem aftur veldur ofauðgun og dauða lífríkis. Ef annað hvort efnið (segjum N) er í takmörkuðu magni í stöðuvatninu dugar að hreinsa það úr frárennslinu. Aukinn fosfór (P) myndi ekki valda ofauðgun því að þörungar og bakteríur vaxa hvort sem er ekki þar sem N skortir. Mývatn er ekki þannig úr garði gert að aðeins annað efnið skorti. Það fer eftir árstíma, og það er líka mismunandi milli ára hvort skortur er á N eða P.